Próf/Tests

Færðu inn athugasemd
allt, blogg

Þegar við Fríða höfðum verið saman í rúm fjögur ár töldum við okkur vera tilbúin til að eignast barn saman. Þetta var í febrúar 2012. Þann 15. reyndar, eftir kvöldmat. Við lögðum allar varnir á náttborðið og hófumst handa. Ekkert gerðist þegar Fríða átti að byrja á næstu blæðingum og við héldum að þetta hefði tekist. Í fyrstu tilraun. Við fórum saman í apótekið til að kaupa þungunarpróf. Fríða var komin nokkra daga framyfir og í okkar huga var það aðeins formsatriði að pissa á prikið. Við vorum ansi örugg og því kom það okkur í opna skjöldu þegar niðurstaða prófsins reyndist neikvæð.

Við gáfumst ekki upp heldur hugguðum hvort annað og héldum áfram. Tíminn vann með okkur. Við höfum mörg ár til stefnu, sögðum við hvort öðru. Næsta þungurpróf var neikvætt. Og það næsta sömuleiðis. Eftir um 12 neikvæð þungunarpróf, eitt ár, ákváðum við að leita til læknis. Vorið 2013 fór Fríða í keiluskurð þar sem blöðrur á eggjastokkunum voru brenndar og samgróningar sömuleiðis. Fríða var greind með endómetríósu sem hefur á íslensku verið kallað því óþægilega en lýsandi hugtaki legslímuflakk.

Surmelism_Prof_Tests-1

Læknirinn sagði að við ættum að reyna í nokkra mánuði til viðbótar en að öllu óbreyttu leita okkur frekari aðstoðar hjá Art Medica sem sér um tæknisæðingu og glasafrjóvgun hér á landi. Sem og við gerðum ekki. Við höfðum tekið ákvörðun um að flytja tímabundið til Parísar þetta sama haust. Okkur fannst tilhugsunin um að halda áfram að reyna að eignast barn í París ekki óhuggulega. Og það var alls ekki leiðinlegt. Þegar við fluttum aftur heim sumarið 2014 hringdum við í Art Medica.

Fyrsta meðferðin hófst í janúar 2015. Með orðinu meðferð er átt við lyfja- og hormónameðferð. Fríða þurfti að innbyrða hormónalyf til að auka eggjaframleiðslu (sem var þó í góðu lagi, meðferðin gerir bara ráð fyrir aukinni framleiðslu) ásamt öðrum lyfjum sem hafa ólíkan tilgang á ólíkum stigum meðferðarinnar. Þegar eggheimta hafði átt sér stað og eggin hitt sæðið fengum við þær frábæru fréttir að 16 egg hefðu frjóvgast og að við ættum 8 fósturvísa. Átta fósturvísa! Við töldum að við þyrftum aldrei aftur að hafa áhyggjur af barneignum. Við værum komin með vísi að öllum þeim börnum sem við myndum mögulega vilja eignast í framtíðinni.

Surmelism_Prof_Tests-2

Fyrsti fósturvísirinn var settur upp en hinir geymdir í frysti. Hórmónameðferðin hélt áfram. Tilhlökkun okkar var í hámarki. Það sama er að segja um væntingarnar.

Neikvætt. Neikvætt. Neikvætt. Neikvætt. Neikvætt.

Fimm fósturvísar voru settir upp í fimm uppsetningum, þrír lifðu frystinguna ekki af. Við áttum enga fósturvísa eftir og vorum komin á byrjunarreit, rúmu ári eftir að meðferðin hófst.

Þetta var erfitt og langt ferli, sérstaklega fyrir Fríðu sem var á lyfjum allan þennan tíma, og reynslumikið tímabil fyrir okkur bæði. Við lærðum heilmikið um hvort annað og lífið. Við ákváðum þó að hvíla okkur aðeins. Safna kröftum og skoða aðra möguleika. Um vorið 2016 stakk læknirinn okkar hjá Art Medica upp á því að Fríða færi í blæðingastopp. Það þýðir að fara á pilluna sem er auðvitað hlægileg þversögn þegar maur er að reyna að eignast barn. Við vorum samt til í hvíldina og við treystum lækninum sem var og er í miklu uppáhaldi.

Surmelism_Prof_Tests-3

Við komumst að hjá IVF, nýju fyrirtæki sem tók yfir rekstri Art Medica, með mjög skyndilegum hætti um haustið. Með engum fyrirvara var Fríða komin á hormónalyf og við áttum pantaðan tíma í eggheimtu stuttu síðar. Eggheimtan gekk vel en við fengum mun færri egg, aðeins 5 miðað við 16 í fyrri meðferðinni. Sem fyrr reyndum við engu að síður að vera bjartsýn og jákvæð. Nokkrum dögum seinna fengum við símtal um að öll eggin hefðu frjóvgast og við ættum því 5 fósturvísa. Tveimur dögum síðar kom í ljós að aðeins tveir þeirra voru góðir. Annar þeirra var settur upp en hinn í frysti.

Nokkrum dögum síðar, kl. 8:15 að morgni 5. október, þegar ég var búinn að skutla Emilíu frænku Fríðu í skólann, pissaði Fríða á 57. þungunarprófið. Við sáum vel línuna sem við höfðum séð 56 sinnum áður en við sáum glitta í aðra línu. Við trúðum því varla og ég ætla ekki að gera tilraun til að koma tilfinningum okkar þennan morgun í orð.

Eftir að hafa reynt í um eitt ár fékk Fríða hugmynd að myndlistarsýningu sem hana langaði að setja upp þegar við ættum von á barni. Þó að þungunin hafi ekki komið fyrr en fjórum árum síðar hafði hugmyndin alltaf verið ofarlega í huga hennar. Hugmyndin var að mála með olíu á striga eitt rautt strik sem stæði fyrir hvert neikvætt þungunarpróf. Síðasta verk sýningarinnar átti að vera með tveimur strikum líkt og á gluggi á jákvæðu þungunarprófi.

Surmelism_Prof_Tests-6

Með sýningunni vildi Fríða losa um þær tilfinningar sem hafa safnast upp í lífi okkar síðustu ár. Hún vonaðist einnig til að sýningin myndi auka umræðuna um ófrjósemi og jafnvel reynst öðrum sem eiga í erfiðleikum með að eignast barn huggun og veitt þeim styrk.

Eftir að sonur okkar fæddist hófst Fríða handa við að láta hugmyndina verða að veruleika. Hún málaði og málaði og opnaði svo sýninguna Próf/Tests í Duus Safnahúsum á Ljósanótt. Sýningin hlaut verulega athygli, bæði hjá fréttamiðlum (sjá t.d. hér og hér) og fólki sem setti sig í samband við Fríðu og þakkaði henni fyrir að vekja athygli á ófrjósemi. Margir hafa deilt með okkur svipaðri sögu af sinni reynslu. Þegar við vorum enn að reyna fundum við mikla huggun í frásögnum annarra sem voru í sömu eða svipaðri stöðu. Hvort sem það var fólk sem þekktum eða ókunnug pör. Það gleður okkur því mjög að fólk tengir við frásögn okkar og að hún geti veitt öðrum styrk í sinni vegferð.

Surmelism_Prof_Tests-4

Surmelism_Prof_Tests-5

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s